Viltu taka þátt í að halda upp á 30 ára afmæli sveitarfélagsins?
Reykjanesbær auglýsir eftir umsóknum um styrki úr afmælissjóði sveitarfélagsins. Þann 11. júní 2024 verða 30 ár frá því að Reykjanesbær varð til við sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna og stendur til að fagna þeim áfanga á árinu. Hægt er að sækja um styrki fyrir verkefni og viðburði sem hafa það markmið að auðga mannlíf, efla menningu, virkja íbúa og/eða laða að gesti, heiðra söguna, fegra bæinn eða styðja við fjölbreytileikann í sinni breiðustu mynd. Verkefnin mega koma til framkvæmda allt árið 2024 en sérstök afmælisáhersla verður vikuna 10.–17. júní.
Umsækjendur þurfa að gera grein fyrir hvaða þýðingu verkefnið/viðburðurinn er talinn hafa á samfélag sveitarfélagsins og hvernig mun hann tengjast 30 ára afmælinu. Verkefnið/viðburðurinn þarf að fara fram í Reykjanesbæ.
Miðað er við styrkfjárhæðir séu á bilinu 50 til 500 þúsund krónur en í undantekningartilvikum er unnt að veita hærri styrki fyrir umfangsmikil og metnaðarfull verkefni.
Valnefnd metur þær umsóknir sem berast út frá markmiðum afmælissjóðsins en tekið er mið af raunhæfni verkefna, kostnaðar- og tímaáætlun, ásamt því hvernig þau passa inn í dagskrá afmælisársins. Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.
Umsóknum skal skila með rafrænum hætti hér.
Hægt er að senda fyrirspurnir á netfangið [email protected]. Frestur til að senda inn umsóknir er til 1. febrúar 2024.